Vor

Jurtir þíðar fara á fót
fagrar hlíðir gróa
árdags blíða bjarma mót
blómin fríðu glóa.

Sólin þaggar þokugrát
þerrar saggans úða
fjóla vaggar kolli kát
klædd í daggar skrúða.

Sólin háa himni á
hauðri gljáir móti
vegleg má sinn vænleik sjá
vatns í bláu fljóti.

Mörg ein fríða fjólan grær
fróns á víðu setri,
ekki bíða allar þær
eftir hríð og vetri.

Vísur: Jónas Jónasson, Torfmýri
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Árni Árnason gersemi

Rímur af Núma kóngi Pompílssyni
4. ríma, vísur 19-22

Svefninn býr á augum ungum,
eru þau hýr þó felist brá
rauður vír á vangabungum
vefur og snýr sig kringum þá.

Sig innvikla í rósum rörum
rauðu taumar æða blá
litir sprikla létt á vörum
og laga draumabrosin smá.

Andinn hlýr sem ilminn nýta
óspart lénar vitum sinn
í lífinu býr og brjóstið hvíta
í bungur þenur og dregur inn.

Húðin skæra hönd og fótinn
hægt í kringum vafin er
um um sívöl lærin liðamótin
litla hringi marka sér.

Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Björn Friðriksson
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Árni Árnason gersemi