Jesúrímur

eftir Tryggva Magnússon

Tryggvi Magnússon (1900-1960) teiknari og myndlistamaður, yrkir um lífshlaup Jesú Krists á gamansaman hátt.

FYRSTA RÍMA.

Þundur styrki þrótt og list
þagnartíð að banna.
Ég vil yrkja um Jesú Krist
jöfur Gyðinganna.

Gefið hljóð og hlustið á
hvað ég nú vil inna,
gjörvöll þjóðin mæta má
mærðarskemmtan finna.

Mér er ei um málið létt,
margt vill hugann þreyta
varla ríman verður slétt,
vil þó orku neyta.

Örg og leið er æfin mín,
allt trúi ég henni spilli,
bæði vantar brennivín,
bjór og kvenna hylli.

Ef mér gæfi í ljóðalaun
lofnin mundar klaka
ástir sínar, andans kaun
af mér hlyti að taka.

—————————
Róma stýra veldi vann
virðulegur sjóli,
Ágústus nam heita hann
háum sat á stóli.

Mörgum foldum fylkir sá
frægur stýra náði,
Serkland bæði og Afríká,
einnig Grikkja láði.

Germaníu gramur réð,
Gallíu átti líka,
Persía, Spánn og Prússland með
prófuðu kosti slíka.

Einnig stýrði Egyptó
Ágústus í Rómi,
hilmir Sýrland hafði þó,
hans var mikill sómi.

Lönd er kappar kenndu um heim
keisarans forsjár nutu.
Býsna margir þengli þeim
þjóðkonungar lutu.

Heródes hét af þeim einn,
undirförull, slægur,
ódáðanna ei til seinn,
af þeim varð hann frægur.

Löndum stýra vísir vann
vart í sessi hvikull,
Júðaríki réði hann,
ranglátur og svikull.

Járna hlynur Jósep hét
júða einn í landi,
nýtur bjó í Nasaret
nauða firrtur grandi.

Snikkari var og mund þess manns
mun til verks ei spöruð.
María nefndist heitmey hans,
hyggin væn og fjöruð.

Það bar til í þennan mund,
– þannig sagan kenndi -,
alein heima auðs var grund,
engill til hennar vendi.

Sendur háum Himni frá
helgur mælti engil:
Hafa náir hug þér á
Himna stæltur þengill.

Heil og sæl, þú heppna frú,
hrintu frá þér kvíða,
Drottins náðar nýtur þú
niftin einkar fríða.

Hildur glóða hlés varð nú
hræðslu slegin æði,
af því veðrið ei veit sú
á sig hvaðan stæði.

Tjáir engill : Unga mey,
óttans farga skrifli.
Himna þengill hann mun ei
hafa marga að fífli.

Þú munt fæða arfa einn,
átt hann Ésú kalla,
sá Éhóva sonur hreinn
synd mun þekkja valla.

Veldi Davíðs víst skal fá
viður ramur sverða.
Hans mun ríki aldrei á
endir nokkur verða.

Illa trúa eg má þér,
auðs kvað fögur spraka,
því að enginn maður mér
meydóm frá réð taka.

Lofts nam ferðalangurinn
ljósust svörin spjalla:
“Seggir munu soninn þinn
son hins æðsta kalla.”

Helgum anda væri í vil
við þig leik að eiga.
Sikling hæða hlakkar til
hjá þér hvíla mega.

Það væri gaman, þernan tér,
það mundi engu spilla,
orð þín rætist öll á mér
em eg drottins frilla.

Mætur réði Mikkel tjá,
mundi Kristur alinn
Betlihems í breiðri krá,
buðlung æðstur talinn.

Svo var það á samri tíð
sjóli Rómar mætur
utan tafar öllum lýð
orð sín flytja lætur.

Skipun gef ég, skjöldung tér,
skilja það allir mega
manntal hefja höldarner
um heim gjörvallan eiga.

Um það sjái aldirnar
að sig fái talda,
og til sinnar ættborgar
á sérhvur að halda.

Betlihem var borg Davíðs
borinn í henni var hann
fyrrum gramur Gyðinglýðs,
gullkórónu bar hann.

Öðlings Davíðs ættum frá,
– um það sögur skrafa –
Jósep með og Maríá
munu verið hafa.

Betlihems til borgar því
bæði arka náðu.
Gisti háu húsi í
húspláss ekki þáðu.

Það á náttarþeli var,
þegnar knáttu sofa,
fylkir júða fæddist þar
fjárhús – úti í – kofa.

Móðir Ésú María
mundi hann að bragði
allan reifum innpakka
og í jötu lagði.

Áðurnefndri nóttu á
– niftum hermir saga –
sínum kindum sátu hjá
sauðamenn í haga.

Hjá þeim allt í einu stóð
engill drottins sprækur.
Vindbláinn og Viðris fljóð
vafði ljómi stækur.

Hugann misstu hirðarner,
hjörtun sigu niður.
Ei ég vildi, vængja tér
viðrir, skelfa yður.

Fagnaðs yður flyt ég boð,
flesta mun þau varða:
fæddur er og vafinn voð
vísir allra jarða.

Kristur í Davíðs þorpi þar,
þið munuð ramma á hann,
í jötu lagður víst hann var,
viljið þið fara og sjá hann.

Þannin hjalar vængja ver.
Vann þá til hans dansa
óvígur frá himni her,
hlífar skyggðar glansa.

Hrímnis skalla hildingi
herjans skrýddur flíkum,
herinn allur hrósaði
hátt með orðum slíkum:

Lof sé dýrðar Gandálfs Gaut
Gangráðs vífs í fjósi,
hjaldur fari af foldu braut,
friðinn bragnar kjósi.

Velþóknun sé virðum með
vísis föður sala.
Englaskarinn allur réð
orðin þessi gala.

Því næst engla ægur her
upp til himins sprangar,
hissa stóðu hirðarner,
hræðslan megn þá fangar

Eftir þessa atburði
ei til víga gjarnir
Betlihems í heimkynni
hlupu sauðrekarnir.

Maríu sáu sauðmenni
sú var þá í vanda,
Ésú lá í jötunni,
Jósep hjá nam standa.

Hirðar sögðu lýði lands
ljóst hvað nú vann greina,
alla rak í rogastans
ræðu við hjarðsveina.

Síðan aftur arka ná
álmaviðir traustu
leifturvega lofðung þá
lofuðu hárri raustu.

Öðlings burðar eftir nátt
askar sterkir rómu
austurvegs úr víðri gátt
vitringarnir kómu.

Hvar er alinn öðling lands?
Ýtar spurðu fróðir,
lengi höfum leitað hans
lúnir og göngumóðir.

Hans vér stjörnu höfum séð
hátt á lofti skína,
lotning hæsta heiður með
honum viljum sýna.

Heródes nær heyrði að
hilmir væri fæddur,
honum leist ei hót á það,
hann varð býsna hræddur.

Kóngur presta kalla fer,
kænn í pretta ráðum,
kenndur að verstu klækjum er,
kemur þetta bráðum.

Stillir spyr nú klerka hvar
Kristur fæðast eigi.
Í Betlihem ansað var,
ætlum vér skriftin segi.

Fylkir lætur fróða þrjá
ferðir þangað inna,
öðling segja áttu frá
ef þeir piltinn finna.

Sjálfur þóttist sveininum
sýna vilja heiður,
fölskum búinn fláræðum
fólskuhundur leiður.

Buðlungs gættu boðskapar,
Betlihems á traðir
vappa náðu vitringar
voðalega glaðir.

Vitringar með visin bein
– vann svo ritning inna –
í því húsi ungan svein
og hans móður finna.

Ésú glöddu brjótar baugs
búnir gleði kyrru,
Hölga rauðu ræfri haugs,
reykelsi og myrru.

Héldu síðan heimleiðes,
hirtu ei par um annað,
en að hitta Heródes
hafði Guð þeim bannað.

Er til kóngs þeir ekki gá,
ofsabræði gripinn
leiður verður lofðung þá
ljótur mjög á svipinn.

Heyra vildi hildingur
hræsnislund með arga,
Drottins hvar við hefðist bur
honum vildi farga.

Júðakóngur vondur vann
verkin ljótust gera,
Betlihems í breiðum rann
börnin öll lét skera.

Þeygi argur eyða kann
englakóngsins jóði,
af því Jósep undan rann
unga með og fljóði.

Illskan gylfa þrautir þó
þeim á herðar lagði,
flýðu öll til Egyptó,
eins og Guð þeim sagði.

Heródes sitja heima vann,
hrædd við kóng þau vóru,
þegar Fjandinn hirti hann
heim þau aftur fóru.

——————–

Sljór er orðinnn óðardör,
ýtir stála hrausti,
því skal lekur Kjalars knör
hvíla sig í nausti.

Svefnin þjáir menn og mey,
magnið brýtur stöku,
best er að láta Bömbursfley
bíða næstu vöku.

ÖNNUR RÍMA.

Einn er búinn bragurinn,
burt er flúinn þróttur minn,
Bifurs fúinn báturinn
bröltir nú á ljóðpollinn.

Á öllu vetur vinnur slig,
væri betra að hvíla sig,
skelfa hretin mögnuð mig,
mín aðseta er hörmulig.

Öðruvísi var sú tíð,
vann úthýsa frá mér kvíð,
Himnavísis herlegt smíð,
hrundin lýsigulls dáfríð.

Þá var hossað högum mín,
hresstum oss með fögur vín,
Ægisblossa eikin fín
ótal kossa gaf mér sín.

Þrjóta náir söngva sagl,
sjótir þjáir mansöngsstagl,
ljótum á er óði bagl,
áfram má við ljóðaþvagl.

———————

Jóhannes hét nýtur mann,
nú ég lesa vil um hann,
gelmir kesju gildur vann
gera Ésú veg beinan.

Þeygi smár á velli var
vitur ári baughríðar,
úlfaldshára úlpu bar,
afar knár og digur þar.

Fjölnis snót á frábærrar
fræðslu njóta dróttirnar,
þorna brjótur beysinn þar
bjó hjá fljóti Jórdanar.

Skírði plátu þundur þar
þá sem játa syndirnar,
við sína kátur sveina var,
sjálfur át hann flugurnar.

Eitt sinn klár til köllunar
Kristur gár til Jórdanar,
tjá það skrár mjög trúlegar,
tvisvar ára fimmtán var.

Jóhannes með sveinum sá
sjálfan Ésú til sín gá
Jórdans flesjum fögrum á,
fleina blesinn mælti þá:

Sjáið þann sem þarna fer,
það er hann sem kominn er,
spádómanna kynnir kver
hverra manna þessi er.

Að oss vinda ætlar sér,
Alvaldskindar jóð það er,
heimsins synd á herðum ber
Herjans kyndla ramur grér.

Kristur hælinn koma vann,
komið þið sælir, innti hann,
skjótt við mælir skírarann:
Skír mig dæli heiðursmann.

Aftur hjörva gegndi grér,
grímnir örva þannig tér:
Stórum þörf er meiri mér
málma njörvi á skírn af þér.

Allt sem rétt er ansar hinn,
oss til setti skaparinn,
öngvar glettur gilda um sinn,
gerðu þetta karlinn minn.

Þannig kýta þeir saman,
þeygi nýtast soddan kann,
Ésú ýtinn jagast vann,
Jói hlýtur skíra hann.

Skírði fleira skatna lið
skálmafreyr með prúðan sið,
þarna meir en misserið
málma eirir þollur við.

Jarli leturs lýsir mas,
ljótt karltetrið hafði fas,
hans er getið helst við þras,
Heródes hét hann Antipas.

Getið sé um gylfa þann,
Galíleu stýra vann,
um það hve sig uppdró hann
ekkert félegt segjast kann.

Einkanlega elskar jall
allavega svikabrall,
gæðatregur, gjarn á svall,
geysilega vondur kall.

Sjálfur Fjandinn fúlum blés
fítonsanda í Heródes,
þollur branda þar um les,
þá var stand með Jóhannes.

Illa gáði að sér þá
odaláðareynir sá,
svo sem áður innt er frá
iðka náði skírnarstjá.

Kenndi tóman sæmdar sið
sífellt rómað karlmennið,
ofboð frómum verst þó við
var hórdóm og gjálífið.

Járna flesju jólnirinn
Jóhannes er vandlætinn,
téður kesju hirðir hinn
Heródes, var rangsleitinn.

Trauðla góður tjörgu Þór
tældi fljóðin kostasljór
og síns bróður uppá fór
auðarslóð, og drýgði hór.

Jói svona síst kann við
Salomonar lífernið,
alveg honum óar við
eins og von er slíkum sið.

Járnakálfur jarmaði,
jarlinn sjálfan skammaði,
þvílíkt álfaáræði
er nú hálfgert glapræði.

Helst með vesen harðsnúið
Heródes brást reiður við,
járns lét grésið jagfengið
Jóhannes í tugthúsið.

Allskyns þrenging hrelldi hann,
huggaði enginn skírarann,
sáralengi í svörtum rann
sómadrengur hýrast vann.

Fátt var léð til líknsemdar,
la á beð dýflyssunnar,
ekkert geðug æfin var,
illri meðferð sætti hann þar.

Jarl ei lausan lætur hann
líftjón kaus á skírarann,
af honum hausinn höggva vann
hinn ei rausa meira kann.

Heldur vægir þegninn þá
þetta nægir honum stjá,
þó ei hlægja að þessu má,
það var ægilegt að sjá.

Svona trúi ég sá dæi
sínu lúinn af starfi,
hún var búin hans æfi,
hann er nú úr sögunni.

Ljóðin áður inntu frá,
óður náði þar um tjá,
stóðu báðir bekknum hjá
bjóður náða og Jói þá.

Greppur hagu, gallafrí,
– gjörði bragur lýsa því –
skær og fagur skálmatý
skírði lagarstraumum í.

Starfi slíkur gekk með glans
gjörðir líka skírarans,
sæmdarríkum syni manns,
sögunni víkur nú til hans.

Skírnarslarki skolaður,
skjaldan kjarkinn hann brestur,
oddaþjarkur óblauður
eyðimakar til gengur.

Ullur branda útá rann
eyðisandinn glóðheitan,
fullur af anda helgum hann
hitti fjandann þar sjálfan.

Ésú flýja varla vann
voðalyginn andskotann,
fasta í allfrægur hann
fjörutíu daga kann

Ésú Kristur auðn út á
öngvar vistir hafði hjá,
mikið þyrsti manninn þá
matarlyst nam einnig fá.

Sverðahróki svinnum þar
sultur jók á freistingar,
gaula tóku garnirnar,
getur bók um hörmungar.

Másuðu lungun eymdaróm,
urgaði tunga skrældan góm,
undir sungu iðrin tóm
ógnar hungurlegum róm.

Kölski girnist Kristi að ná,
kjafti firnaljótum brá,
fölskum glyrnum gaurinn sá
gaut einbirni drottins á.

Best er að reyna brögð ótrauð,
böls óhreinast sagði skauð,
þessum steinum breyttu í brauð,
bannaðu mein og léttu nauð.

Gvuðs ef réttur arfi ert,
allvel þetta færðu gert,
það mun frétta þykja vert ,
þrjótur prettvís mælti bert.

Drottins sauður svar nam tjá
svörtum kauða vítis þá:
Lifa brauði einu á
enginn hauðurbúi má.

Því á storðu má hver mann,
meiður korða segja vann,
mat sem borðar mjög góðan,
með Gvuðs orðum blanda hann.

Þannig hjalar þornafreyr,
þögnuðu halir báðir tveir,
þar um tala tjáði ei meir,
til Jórsala fóru þeir.

Inn í musterið þeir gá,
uppá burst þeir klifrast fá,
Kristur hlustar Kölska á,
kaldur gustur lék um þá.

Inn í musterið þeir gá,
uppá burst þeir klifrast fá,
Kristur hlustar Kölska á,
kaldur gustur lék um þá.

Kölska brettist kjaftur á,
Kristi settist Djöfsi hjá,
allur fettist Fjandinn þá
furðu grettinn til að sjá.

Rammslægastan hót með hörð
hrekki brast ei púka vörð,
lagði fast að nadda njörð
niður kasta sér á jörð.

Skrifað stendur, Skrattinn kvað,
skjöldung kenndi himna það,
hann mun senda engil að
ekkert hendi þig bölvað.

Þig skulu ljót ei mæða mein,
málmanjótur, í þér bein,
ekki brjóta áttu nein
eða fótinn reka í stein.

Þrautir leysti þornaver,
þetta hreystisvarið tér:
Aftur veistu, álmagrér,
ekki freista drottins ber.

Ésú staka stilling bar,
stóðst óslakur freistingar,
ekki hrakið þrjósku þar
þó af baki dottið var.

Uppá fjall þeir arka ná,
yfir falleg ríki sjá,
heiminn allan horfa á,
hressir kallar voru þá.

Kristur iðar sætt með sinn,
sagði við hann Andskotinn:
Leggstu niður manni minn
mig tilbið sem drottinn þinn.

Ef þú gerir eins og ber
ýlduhverasjóli tér,
allt hvað sér þú álma grér,
ætla ég mér að gefa þér.

Kristur varast Kölska réð,
klækja hara gat við séð,
lét ei fara langt sig með
lymskupara þrælbeineð.

Ansvör nistisnjótur fann,
nokkuð byrstur gjörðist hann,
mælti Kristur margt við þann
myrkra ystu höfðingjann.

Snáfi að bragði burtu nú
brennu agða vættur sú,
Drottinn sagði drengjum trú,
djöfuls flagðið, heyrir þú.

Þrætu stórum efldu ys,
ýtar fóu sátta á mis,
kostasljór með kjafta þys
Kölski fór þá heimleiðis.

Heldur lítinn heiður fann
helst vill bíta frelsarann,
ekki sýta Satan vann
sjálft helvíti gleypti hann.

Saman lauk sér frónið fyrst,
foldar baukur lokaðist,
mæða aukin magnaðist,
moldin rauk um Ésú Krist.

Loksins sóttist ljóða smíð,
langa dróttum stytti tíð,
gaman þótti greindum lýð,
góða nótt ég öllum býð.

ÞRIÐJA RÍMA.

Nú skal byrja og nýjan kyrja braginn,
ef hin fríða auðarlín
á vill hlýða ljóðin mín.

Blóðið flæði brátt úr æðum Kvásis,
örðug glíman víst mér var
viður rímur Ésúsar.

Nú er meir en nóg af leirbögunum,
fleina viðir fljóð og svinn,
felli ég niður mansönginn.

Fyrri háttur falla knátti bragar,
fleina rjóður frí við synd
fjalls þar stóð á efsta tind.

Og er Fjandinn fór til landa sinna,
mettur dyggðum maður sá
mannabyggða leitar þá.

Sem af hendi himna sendur jöfurs
kom hann fram með spámanns spjöll,
sperrtu þrammar út á völl.

Gekk í kring og kenndi slynga speki,
syndaþjáðum líkn vann ljá,
lyndisbráður græddi þá.

Hvar sem fór um foldar kórinn stóra
til hans lýður vaga vann,
vildi hlýða oft á hann.

Á hans kenning komu menn að heyra,
og á þessum oddafreyr
alveg hlessa voru þeir.

Var í fasi voða gasalegur,
eins og valdið hefði hann
hjörvabaldur tala vann.

Ekkert líkur er hinn ríkulegi
þeim skriftlærðu lýðum, sá
lítið kærði sig um þá.

Mikið fagna máttu bragnar honum,
rimmuflagðareynirinn
rekkum sagði boðskapinn.

Þannig seggjum sagði eggja viður:
Er ég sá sem um er spáð
eigi að sjá um þetta láð.

Ég mun frelsa undan helsi ljótu
flestan lýð um foldar bý,
fyrðar bíða eftir því.

Seggur þorinn sagðist borinn Gvuði.
Eru svona orðin hans:
Eg er sonur skaparans.

Kvað enn framar korða vanur bendir
eins og hér á eftir fer:
Álma verum hlýða ber.

Þeir sem nú á þetta trúað geta
ekki rata í eymdinni
eða glata sálinni.

Skulu þessir þegnar blessun hljóta,
einkar dælum er þeim vís
eilíf sæla í Paradís.

Bersyndugua bagna hugarkléna
ekki forðast hefur hann,
hjá þeim borða stundum vann.

Þeirri ást sem aldrei brást hjá honum
beitti hann þar hjá bófunum,
blíður var hjá þjófunum.

Til sín alla ýta kallar þjóða,
komið hingað, kveður hann,
kver sem þyngir ólukkan.

Til mín skundi, tjáði þundur geira,
hver sem þreytan þjáning bjó,
þeim ég veiti hvíld og ró.

Margt var það sem þessi maður sagði,
einkum beima beiddi hann
best að geyma sannleikann.

Orðin sín ei sagði týnast mundu,
þó að veröld eyddist öll
eða sér umbyltu fjöll.

Drottins kundur darra lunda fræddi,
sá nam bjóða sannindin,
svona hljóðar kenningin:

Sæll er hver er sálu ber volaða,
Himnaríki hann mun fá,
happi slíku hrósa má.

Þeir er sælir sem að skæla núna,
naumast ugga þurfa þeir,
þeir munu huggast síðar meir.

Síst þarf kvarta sá hinn hjartahreini,
Drottinn mun hann sjálfan sjá,
sá við una dável má.

Hver friðsemi sig við temur líka,
sælu valla vantar þann,
virðar kalla Gvuðsbarn hann

Ef rétlætis ekki gætið betur
þeim sem læra lögmálið,
litlu nær er Gvuðsríkið.

Að drepa mann var drengjum bannað áður,
hver sem þetta fremur frekt
fyrir rétti mætir sekt.

En ég segi og þér megið hlýða,
sá er reiðist höldum hér,
hann um leið dóms sekur er.

Hver sem segir sinn við eigin bróður:
Ertu slæmur asni víst –
ekki dæmist þessi síst.

Gvuðleysingja gætir hrings hver nefnir
braut skal fara beinleiðis
bölvunar til Helvítis.

Sá mun engjast undir spreng sárkvalinn
í Helvítis eldinum
á bálhvítum glæðunum.

Vitið þér að þannig er og skrifað,
syndin þótti það allstór –
það er ljótt að drýgja hór.

En ég kenni, allir menn það viti,
lokið ekki eyrum við
ítrir rekkar, heyrið þið.

Augum girndar auðs hver Rindi lítur,
hann með bjartri hringalín
hór í hjarta drýgir sín.

Þig ef augað álmadraugur hneykslar,
kræktu fingri einum í,
út það sting og fleygðu því.

Hönd afsker, ef hún þig fer að hneyksla,
þessu gera áttu í,
ekki vera að fresta því.

Lim því sveini sælla er einum tapa,
en að búkur brenni hans
brátt hjá púkum andskotans.

Þig ef slær einn þú svo nærri liggur
höggið kynstra á hægri kinn
honum vinstri bjóð um sinn.

Ef nokkur vænum vill þig ræna kyrtli,
þessum gikki, góði minn
gefðu skikkjuræfil þinn.

Ef þig neyðir einhver leiður dóni
með sér fara mílu nær,
með honum bara farðu tvær.

Unn þeim mest sem við þig verstir eru,
blessa þann sem bölvar þér,
böl þér vann og formæler.

Hver ei hatar hrafnamatarbjóður
systur, bróður son og víf,
sína móður, föður, líf,

sá minn lærisveinn ei fær að heita,
þess ei dylja þegna má,
þennan vil ég ekki sjá.

Þú ei sorga þarft um morgundaginn,
hverjum degi hrelling sín
held ég megi nægja ófrýn.

Þannig kenndi þessi bendir stála,
askur geira innti ríkt
ótal fleira þessu líkt.

Vigra þóra valdi fjóra og átta,
þá postula þjóð nefnir,
þessir skulu upptaldir.

Einn hét Pétur ýtum betri flestum,
elda gjögurs viti var
vaskur mjög til framsóknar.

Kærstur Ésú Jóhannes var talinn,
kallar svein er Kristur ann
kostahreinust ritning þann.

Kaus og Ésú Jóhannesar bróður,
helst óslakan hjörs í þrá,
heita Jakop náði sá.

Er að góðu getið bróður Péturs,
Þessi Andrés er nefndur
Ýtir branda hamrammur.

Þessir fjórir fiski – vóru – karlar
áður kristur – innt er frá –
á sinn lista skráði þá.

Enn um getur einn sem hét Matteus,
virðing gleymt sé vart þess manns,
var tollheimta starfið hans.

Bartólómeus best er sé og talinn,
Jakop sonur Alfeus
og með honum Filippus

Einn má nefna nógu efnilegan
sendan út í kennslu krus
kallaður Júdas Taddeus.

Þá var Símon sverðaglímu tamur,
viskusnari vigra bur
vandlætari kallaður.

Einn hét Júdas, argur pútusonur,
eins og prestur ágjarn var
eða verstu Gyðingar.

Þessir kallar Kristi allir lutu,
hvar sem fóru fold yfir
fylgi vóru þeir spakir.

Vopna kólfur vann þá tólf útsenda,
saman gengu tveir og tveir,
traustir drengir vóru þeir.

Skyldu beimar betra heim gjörvallan,
lýður voðalegur þá
ljót skurðgoðin trúði á.

Geirabaldur gaf þeim valdið yfir
– eins og Lúkas innir frá –
öllum púkum vítis þá.

Þessu trúi ég þá sé búin ríman,
er nú þrotinn andi minn,
Austra brotinn kuggurinn.

FJÓRÐA RÍMA.

Ýti ég á Austra veg og espa geðið,
allt var þetta illa kveðið.

Aldrei var mér um það sýnt að yrkja ljóðin,
gjaldi þess nú gjörvöll þjóðin.

Skal þó aftur skipt um hátt að skálda siðum
og færi renna á Fjalars miðum.

Þó ég beiti orku að og öllum mætti,
næ ég varla nokkrum drætti.

Uggir mig að enginn verði af því glaður,
aldrei var ég aflamaður.

Óðin minn og Ægi bið ég óp mitt heyra,
kaupa vil ég Kvásis dreyra.

Heiti ég á heilög rögn af hug og móði,
byrlið mér af Boðnarflóði.

Þeir sem út af æfintýrum ortu bögur,
launin stundum fengu fögur.

Ef ég gæti öðlast sumt er aðrir fengu,
skyldi ég karl minn, kvíða engu.

Veit ég glöggt að enginn er ég óðarjöfur,
litlar á ég launakröfur.

Ef mér gæfu kvinnur koss og kannske fleira,
vel ég myndi við það eira.

Nú er vanþörf engin á að auka gleði,
þeytum burtu þungu geði.

Þrautaleið er þessi öld og þreytir lýði,
ýta sækir svefn og kvíði.

Langir dagar, daufleg kvöld og daprar nætur,
horfnar eru heimasætur.

Dauft er hvar sem fauskar finnast flæðar bríma,
sumir muna tvenna tíma.

Ei var svona aldarfar í æsku minni,
píkur sátu á pöllum inni.

Ekkert þá til vansa var um veröld alla,
drengir þorðu að drekka og svalla.

Skáldin voru skemmtileg við skvaldur glasa,
þá var stundum margt að masa.

Unga fólkið samdi sig við siðu góða,
tíð var sagnalist og ljóða.

Það var títt að þegnar snjallir þreyttu glímur,
kveðnar vóru á kvöldin rímur.

Haldnar vóru hátíðir og hávær gleði,
söng þá hver að sínu geði.

Fullum kerum flóði af í fyrri daga,
það var eins og segin saga.

Mestur þótti maður sá er mest fékk drukkið,
enginn kunni að óttast sukkið.

Lýðir þoldu lyfin ströng og langar vökur,
enginn nefndi innantökur.

Yngismeyjar ekki hröktu ýta frá sér,
þó þeir fyndu eitthvað á sér.

Þernur vóru þýðlyndari þeirrar tíðar,
þó þær hefðu hempur síðar.

Þótt við meyju meinlaust gaman maður ætti,
ámæli þá enginn sætti.

Þá var meiri munaður og meiri kæti,
meira fjör og meiri læti.

Kátir menn og meyjar vóru meira saman,
þá var miklu meira gaman.

Enginn getur afturkallað æsku sína,
ungdóminum allir týna.

Hálm má líkja virðum við og visna sinu,
mjög er förlað mannfólkinu.

Eg vil hætta ei svo viti öllu tapi,
ég er enginn angurgapi.

Mansöngstetrið þrýtur þá að þessu sinni,
fram skal haldið frásögninni.

———————————–

Lýðir muna lyktað hafði ljóða hjalið,
sjóli hafði sveina valið.

Kristur út um sveitir sendi sína kalla,
orkusmáir voru valla

Þessir vóru þrír og níu þundar snæra,
eins og gjörðu ýtar læra.

Gist þeir höfðu Gyðinganna glæstar borgir,
margra höfðu minnkað sorgir.

Kenndu þeir að kominn væri kóngur ríkur,
enginn fyndist annar slíkur.

Öllum sögðu askar rammir Ægis brímans,
færi að nálgast fylling tímans.

Garpar þeir með geði frómu, greinir saga,
aftur komu utan baga.

Er þeir vóru aftur komnir allir saman,
herrann gjörðist hýr í framan.

Allgóð þeirra verkin vera virtist honum,
í það minnsta eftir vonum.

Starfið vildi í stærri miklu stíl því reka,
og alla frelsa ýta seka.

Tugi sjö af traustum rekkum tiggi sendi,
lýður þessum lýðnum kenndi.

Innt var frá að allir þessir ýta synir,
áttu að gjöra eins og hinir.

Herrann flutti fræði sín af fornum bókum,
orðum beitti afar klókum.

Drjúgum kenndi döggling sá í dæmisögum,
eins og nú skal innt í brögum.

Mildings tunga mögnuð var og mælska liðug,
djöfull vóru dæmin sniðug.

Kappinn reyndist karskur mjög í kennslustandi,
sögur þuldi svohljóðandi:

Himnaríki helst er líkt með hegðun fína
liljum gulls með lampa sína.

Tíu mátti telja þessar tróður glaðar,
allar voru óspjallaðar.

Ægisljóma eikur gengu ört að vonum,
beint á móti brúðgumonum.

Fimm þær vóru forsjálar en fimm hinsegin,
þær voru svona gjörðar greyin.

Hinar vitru viðsmjör tóku víst án trega,
enda gekk þeim ágætlega.

En þær heimsku höfðu ekki hirt um þetta,
því er ljótt af þeim að frétta.

Svo er skráð að segði lundur sjóðarfuna,
– rengir nokkur ritninguna – ?

Sögu aðra segja réð af sannri speki,
skrifa ég hana skjótt með bleki.

Ésúsar um vald og visku vitni bar hún,
sjáum til – og svona var hún:

Sjálft Gvuðsríki, sagði hann á sannleiksvegi,
mjög er svipað súru deigi.

Í gvuðspjöllunum get ég þetta glöggt sé bókað,
kona nokkur kom og tók það.

Mæt það fól í mælum þrem af mjöli hreinu,
sýrðist það þá allt í einu.

Ríki þess er ræður fyrir röðuls fleti
enn er svipað einu neti.

Ýtar snjallir út því fleygðu á ægis brautum,
fylltist það af fiski blautum.

Þeim er komið þótti nóg af þeirri vöru,
inn það drógu og upp í fjöru.

Vondum fiski virðar slepptu í víði bláan,
enginn vildi af þeim sjá hann.

Góða fiskinn síðan frá þeir sortéruðu,
ýmsir steiktu hann, aðrir suðu.

Eins munu gjöra englarnir á efsta degi,
athugið hvað ég yður segi.

Þá mun illum útsnarað til eldiviðar,
hinir njóta heilags frðar.

Svona eru sögurnar og sumar betri
skráðar meður skíru letri.

Oflangt væri upp að telja allar saman,
samt er að þeim sumum gaman.

Því er fyrir þá sem vilja þetta muna
best að lesa biblíuna.

Ekki meira ætla ég þetta um að spjalla,
niður læt ég ljóðin falla.
FIMMTA RÍMA

Nýjan braginn nú skal hefja,
nýtum veld ég söng,
því með lagi stuðlar stefja,
stytta kveldin löng.

Templarar þeygi þurfa að kvíða
– um þá ég skrafa vil -,
umbun megi öðlast síðar
sem unnið hafa til.

Mest þeir líkjast morknum draugum
mein sem unnið fá,
blína slíkir brostnum augum
bresti hvers manns á.

Erkidjöflar víst án vafa,
veit það trúa mín.
Skyldi Gvuð þá skapað hafa
skammast mætti hann sín.

Látum strákar staupin ganga,
styrkjum andans þol,
drekkum ákaft ölið stranga,
Engin handaskol.

Hefjum kútinn, hækkum raulið
ef höfum vér fengið mál.
Mansöngs úti er nú gaulið.
Áfram drengir, skál.

—————————————–

Fjórða ríman frá því greindi
að fyrri bæði og síð
og allan tíma öðling reyndi
auman fræða lýð.

Út rak púka og allan fjandann
að því Lúkas tér.
Margur sjúkur illan andann
út fann rjúka úr sér.

Eitt sinn þá sín iðkar fræði,
álma njörður leit
sér skammt frá í sæld og næði
svínahjörð á beit.

Drottinn hóar djöflum mörgum
dýrahróin í,
þau fóru í sjóinn fram af björgum,
flestöll dóu af því.

Fóðraði snauða á fiski og brauði,
frelsar í nauðum enn
verndaði kauða villta sauði,
vakti upp dauða menn.

Að næði upp fjölda af náum köldum
nokkrir halda það enn,
en fært það töldu fyrr á öldum
flestir galdramenn.

Til Érúsalem Ésú langar,
jafnan að því hné,
löng þó talin leiðin þangað
labbandi manni sé.

Þengill tvo af þegnum sendi
í þorp er nærri lá.
Ritning svo það rekkum kenndi,
ræsir mælti þá:

Ösnu bundinn finnið fola,
færið mér hann senn,
ykkur mundu þetta þola
þessa héraðs menn.

Ef eitthvert grey vill eitthvað segja
ykkur skiljast má,
bara segið þeim að þegja,
þengill vilji hann fá.

Alls með kurt þess ýtar geymdu
er öðling skipa vann,
folann burt í flýti teymdu,
færðu honum gripinn þann.

Komu því næst þeir og sögðu:
Þvílíkt stímabrak.
Á folann sína larfa lögðu,
lausnarann settu á bak.

Er þeir svo með hægu hóti
héldu sína leið,
æpandi þeim óð á móti
Ísraels hersing gleið.

Borgarfólkið flíkum sínum
fleygði veginn á,
grýtti pálmagreinum fínum
um götuna til og frá.

Lýðurinn hljóp þar hrifning fylltur,
honum var létt um spor,
hósanna æpti hreint sem trylltur:
Heill þér kóngur vor.

Buðlung reið um borgarhliðið
með brogað rustalið,
hann er leið þá hafði riðið,
hélt í musterið.

Í musteri valla brask má bralla,
braml réð gera þar,
hann rak út alla okurkalla
eins og vera bar.

Næstu viku drottinn dvaldi
í dýrri Síonsborg,
kjaftaði mikið og menn átaldi
í musteri og víða um torg.

Júdas klerka fór að finna,
fjár þeir áttu vald,
fárlegt verk kvaðst fús að vinna
fengi hann endurgjald.

Kristi á vald vort komdu góði,
kosta þess allt hvað má,
þér mun gjalda þungum sjóði,
þóknun skaltu fá.

Kaífas, sá varð kátur næsta,
kastaði allri sút,
bograði þá í byrðu læsta
og borgaði kalli út.

Júdas maura mikils virti
meðan andann dró,
þrjátíu aura þar hann hirti,
það var fjandans nóg.

Gleðin páska geyst að fer nú,
gengur mikið á,
þeygi háska öllum er nú
ennþá vikið frá.

Hér er skrambans vont að vera,
vantar betri stað,
páskalambið líst oss skera,
langar að éta það.

Reynið hvað þið framkvæmt fáið –
fylkir tala vann,
– þekkan stað í þorpi ef sjáið,
þá er að fala hann.

Meiðar svangir mækis gengu
með farangur sinn,
breiðan langan loftsal fengu,
löbbuðu þangað inn.

Buðlung góður bar inn sullið
birgðum nægum af,
sjálfur stóð og signdi fullið,
sveinum þægum gaf.

Næst réð gramur brauðið brjóta,
blessaði fína vist,
bar það fram og bað þá njóta,
borða sína lyst.

Ésú ber fram sögn að sinni,
sú var tíkarlig:
Sá mun vera einn hér inni
er ætlar að svíkja mig.

Sveinar urðu sviptir móði,
sút var háskaleg
allir spurðu í einu hljóðði:
er það máski ég.

Herrann kerið hóf og sagði:
heyrðu Júdas minn,
hvað þú gerir, gerðu að bragði,
gamli kúturinn.

Júdas kurteis er þar inni,
ekki hrópa vann,
fór í burtu fúll í sinni,
Fjandinn hljóp í hann.

Hinir sátu að sinni hátíð,
úr sumra hlátrum dró,
drukku og átu allt hvað gátu
allt í máta þó.

Jóhannes sat næstur Kristi
í nógu flottum stað,
saup með Ésú sem hann lysti,
sumt bar vott um það.

Kempan hallast Krists að barmi,
kvað sér duga um hríð,
hans var fallið afl úr armi.
Ölið bugar lýð.

Ésú hvasst nam bragna brýna,
bikar vatt á loft:
Drekkið fast í minning mína
mikið glatt og oft.

Kaleik sinn réð sérhver teyga,
sumir fengu nóg,
öra kynning vígðra veiga
við sig enginn dró.

26
Allt var þrotið, brauðið, bruggið,
um borðið vínið flaut,
skemmtan rotin, skapið hnuggið,
skjögruðu svínin braut.

Gleðjist það er góður vane
geðið álpast heim.
Þeir gengu af stað til Getsemane,
Gvuð má hjálpa þeim.

Yfir Kedron er þeir kómu
öðling seggjum tér:
Er nú betra, ýtar frómu,
að yður leggið þér.

Rétt er að lalla litlu betur,
Lausnarinn snjallur kvað,
Jóhannes kallinn, Kobbi, Pétur,
komist þið valla af stað?

Nokkurs kvíða kenni ég á mér,
kemur Júdas senn,
viljið þið bíða og vaka hjá mér
verið eins og menn.

Naumast Júdas boða bíður,
brýndi hann mútan ill.
Klerkar Júda og kennilýður
Kristi stúta vill.

—————————–

Þollar fróðir Þundarglóðar,
þrýtur ljóðin enn,
sefur þjóðin, svefn er góður
syfjar fljóð og menn.

SJÖTTA RÍMA

Þó að mæði þundar vín
þellur pellaskrúða
skal ég, glæðu hrannar hlín,
hefja kvæðin aftu mín.

Vart ma skrika vegum á
vilji ég þylja ljóðin.
stórt ei kvika ég stefjum frá,
stikluvik hér skaltu fá.

Oft mig stungu undorn hörð,
enginn drengur skyldi
erja klungrin óðs um jörð,
iðja þung er ljóðagjörð.

Mansöng þrýtur þá til sanns,
þótti dróttum betur,
orð má líta innra manns
og einskisnýtu ljóðin hans.

————————————-

Ésú gekk í grasgarðinn
greitt með þreytta sveina,
öls var bekkur uppsopinn,
ei þeir drekka meira um sinn.

Eftir svallið uppgefinn
álmur skálma ramur
synd hóf alla á hrygginn,
á honum hallast klyfberinn.

Skundar engill að honum frár,
undir stundi þunga
kundur þengils Himna hár,
hrundu á vengi blóðug tár.

Himnasendill hugga van
hristi Mistarloga.
Ertu kenndur? innti hann
o, það hendir fjölmargan.

Öðling svalur andsvör tér:
Ekki drekk ég meira,
Eitt ég fala þó að þér,
þennan kaleik tak af mér.

Köllun sinna minni ég má
mest þó fresta vildi,
nauðugur vinn ég nauðung þá.
nú vil ég finna strákana þrjá.

Þengill snjallur þar hittir
þunda mundarklaka,
það voru kallar þrautseigir,
þeir voru allir sofnaðir.

Hyrjar spröku hreiðra grér
hjalaði valin orðin:
Engrar vöku orkið þér,
eymdar slöku kauðarner.

Vísir semur vísdóm þann:
Vakið takið biðja,
svo enn fremur segja vann:
sjá hér kemur lögreglan.

Júdas fyrstur fara vann
fylltur illt með sinni,
þá að Kristi þramma vann,
þrjóturinn kyssti Frelsarann.

Buðlung nú réð byrsta sig
brátt og hátt svo mælti:
Satan trúi ég sendi þig,
svíkur þú með kossi mig.

Pétur flanar fram á svið,
fleininn reyna vildi,
Himnabana hræddist við
hugarvana skauða lið.

Bjóst að drepa bráðólmur
blauða kauðagarma
Hárs í nepju hamrammur,
Hildar krepju þaulvanur.

Ólma geira efldi þrá,
óður vóð að Malkus,
honum eyrað af réð flá,
ekki fleiri högg þarf sá.

Hirð ei brand að hvetja þinn,
herrann snerrinn mælti,
í slíður vandað set um sinn
sveðjufjandann, Pétur minn.

Ésú Herjans hlunnum tér,
hristu þeir kvisti sára:
Ekki berjast ættuð hér,
eða að hverju leitið þér?

Svör þau fyrst þá sveit út lét
sverða – herði – hríðar:
Ésú Kristur hyggjum hét,
hann er víst frá Nasaret.

Sjóli stæltur svara vann
sára – dárum – teina,
óðar mælti: Eg em hann.
Ei var dælt að fást við þann.

Hrausta og snjalla hér má sjá
hróka er skóku fleina.
Hörfuðu kallar hraustir frá,
hlunkuðust allir rassinn á.

Upp þeir stóðu allir skjótt,
ekki gekk þeim miður,
Hnikars glóðir hristu ótt,
að Herranum vóðu um miðja nótt.

Þrælar skóku skyggða rönd,
skeltu og smelltu vopnum,
fleinahróka fúl var önd,
Frelsarann tóku og settu í bönd.

Hér um masa meira ei kann,
mér er hér með lokið.
Kaífasi færðu hann,
Fjandans þras um Lausnarann.

————————————-

Nú fer síga sálminn á,
svein og meyna þreyti,
þeygi lýg ég þessu frá,
því frá hníga kveðskap má.

Um það veðja eg nú kann
að undan mundi ég láta,
suma gleðja samt ég vann.
Svo má kveðja brag þennan.

SJÖUNDA RÍMA

Þótt þú lammir þreyttur þrammir þrönga veginn
hlýtur þú skammir hinumegin.

Og er þér stefnt er ásíðan að efsta dómi
lítill mun þér sýndur sómi.

Þá uppróta þú munt hljóta þínum syndum,
þar er ljótum margt af myndum.

Og er Drottinn ætlar þig að yfirheyra
þú skalt leggja þar við eyra.

Þá mun Herrann hefja máls og horfa á þig,
annars lætur hann aldrei sjá sig.

Hann mun segja: Hér er kominn herjans þrjótur,
sá er bæði leiður og ljótur.

Síðan snýr hann sér að þér og segir af móði:
Hlustaðu á mig, heyrðu góði.

Eg veit það að auminginn þú ert í vanda,
við orð þín hér þú átt að standa.

Göfugt muntu gefa svar ef gjörla ég þekki:
Gvuðsi minn það get ég ekki.

Djöfull ertu dreissugur mun Drottinn segja,
argur þrællinn ætti að þegja.

Þú munt svara: Þess muntu var hver þrælinn skapti,
Haltu bara helvítis kjafti.

Ef þú skemmta ætlar þér og ert mjög þreyttur,
af angri og kvíða sár og sveittur,

ljóst er þá að lögreglan þinn leysir vanda,
aldrei lætur hún á sér standa.

Veit ég það hún vald sitt fær frá vondum bjálfum,
afl og þrek frá Satan sjálfum.

Rembilát er réttvísin hún ræður seinast,
sú mun flestum réttsýn reynast.

Illt er að hafa yfir sér það arga pakkið,
en klerka segja: Þegið, þakkið.

Það er sjálfsagt þakkarvert að þjást og líða,
– eftir hverju er svo að bíða?

Hér við höfum ávallt iðkað iðjur leiðar,
hvorki haft til hnífs né skeiðar.

Þá um síð er þessu lokið, það held ég bara,
til Andskotans þú átt að fara.

Veit ég þá munu við þér taka Vítis púkar,
þeir hirða allar sálir sjúkar.

Ljóti karlinn leggur þig á logandi glóðir,
svo kenndu oss forðum klerkar góðir.

En eitt er víst að ýmsir munu Íslendingar
telja það þunnar trakteringar.

Dýrt er kalað Drottins orð minn drengur góði.
Mansöngs er nú lokið ljóði.

—————————————–

Við sjöttu rímu sú mig glíman sáran þreytti,
orku því ég allrar neytti.

Sú réð kviðan kynna frá þeim karlafjöndum
er lausnarann teymdu burt í böndum.

Því var líka lýst í þessu ljóðamasi
að Krist þeir færðu Kaifasi.

Kaifas vildi við honum taka víst ótrauður
– sá er fyrir lifandi löngu dauður.

Þeir keyrðu hann í kjallarann hjá Kaifasi
með allskyns djöfuls þjarki og þrasi.

Reyndar um síð hann rekinn var upp til réttarhalda,
því munu klerkar og Kölski valda.

Ertu kóngur, Kaifas mælti, hvar eru gögnin?
Þig munu styðja myrkra mögnin.

Kristur gegndi: Kaifas þú mátt kjafti halda,
aldrei sótti eg til valda.

Víst er ég kóngur, viltu kannske vald mitt rengja,
þig gæti ég látið lifandi hengja.

Kaifas meinti að mundi hann sjálfur manna bestur,
enda var hann æðsti prestur.

Heyrið þið klerkar hvað hann ruglar, hann er frá sér,
sjálfsagt finnur hann ennþá á sér.

Við kennum engan krýndan hér með konungdómi
utan keisarann einn í Rómi.

Herrann svarar: Heyri ég hvað þið hermið klerkar,
mjög það illa á mig verkar.

Mitt er valdið vonum meira, ég vel þess geymi,
en það er ekki af þessum heimi.

Kaifas mælti: Kristur þú ert karl hálfskrítinn,
þú hefur fengið þér einn lítinn.

Sjóli tér: Nú snýst ég hér sem snöruð rjúpa,
kaleik þann ég samt skal súpa.

Görguðu klerkar: Gat það skeð að gortið lægði,
æðrast nú sá er aldrei vægði.

Kaifas þá til þengils leit og þar með brosti hann:
Vér ætlum að lægja í þér rostann.

Kristu ansar: Eg held síst ég undan láti,
þú heldur víst ég gugni og gráti.

Eldar Satans senn munu upp þig sjálfan brenna,
þú mér enn ei þarft að kenna.

Þínu valdi eg var aldrei ofurseldur,
ég hræðist ei þína þræla heldur.

Helvíti ertu hortugur þá hrópa prestar,
þínar píslir verða verstar.

———————————

Nú hef ég engan leka lengur lífs af vatni,
þá trúi ég drengjum þrekið sjatni.

Mig brestur móðinn, bræður góðir, búinn er óður,
úti eru ljóðin lagsi góður.
ÁTTUNDA RÍMA.

Líður að vetri, verið getur
von á hretum, seimaskorð,
þá er betra að bæla fletið,
og búa í letur drottins orð.

Menn eru skæðir mennt sem hræðast,
messu klæðast dúkunum,
þeir bera á glæður gamlar skræður,
gefa fræðin púkunum.

Kirkjunnar sveit er klerkar heita
kæfir og eitrar sálarfrið,
andleg geit og Gvuðspjallakeita
gjörvallt þreytir mannfólkið.

Presta er veldi komið að kveldi
þótt Kölska þeir teldu veitandi.
Helvítis seldir eilífum eldi,
þeir eru heldur þreytandi.

Drottins friður fylgi yður,
fullnuð er kviðan þetta sinn,
sú er sniðug, létt og liðug,
legg ég svo niðuur mansönginn.

——————————–

Hissa stóðu heimskar þjóðir,
hafa ljóðin greint svo frá,
Kenndi af móði mennt fullgóða
menn og fljóðin hlýddu á.

Sjóli vendi um sveit og lendur,
sýndist benda honum von,
Gvuðs af hendi sagðist sendur,
svona kenndi hann lon og don.

Frelsarinn hvatti fyrða bratta
fræðslusnatti leikinn í,
úr honum datt þá allur skrattinn,
eitthvað satt kann vera í því.

Gvuðspjöll frá því greindu áður,
grípa náðu frelsarann,
hann varð að bráð þeim bölvuðum snáðum,
burt þeir hrjáðan leiddu hann.

Hryggir í lundu lostnir undrun
líta mundu postular,
í grasgarð skunda glæpahundar,
Gvuðsson bundu illvirkjar.

Á postula skjótt þá skelfing sótti,
skýldi nótt og myrkrið þeim,
trylltir af ótta tóku flóttann,
tryggast þótti að leita heim.

Teymdan létu hann lubbatetrin,
Lausnarann meta ekki baun.
Eftir fetar aumingja Pétur
allt hvað getur, samt á laun.

BROT ÚR LOKARÍMU.

— — —-

Silfri grýtti gólfið á,
gekk það lítt að vonum,
mjög sér flýtti maður sá
margt gekk skítt fyrir honum.

Tók að hengja sjálfan sig,
svírann þveng um hnýtti,
þó afdrif fengi leiðinlig
lát hans enginn sýtti.

— — — — — —

Einskis dauða hann virða vann
vanur nauðastandi,
ljótir kauðar leiddu hann
líkt og sauð í bandi.

Blessað vesen hátt til hnés,
Himna deshússgróður,
líknartrésins frítt með fés
Frelsarinn Ésú góður.

Dæmdum oss til aflausnar
allra hnossa bestur
ránarblossa raftur var
rokna kross á festur.

Klerka sálin ör til alls
örg og hál að vonum
með sitt tál og trúarfals
þeim tókst að kála honum.

Öll veit borgin atburð þann,
eyðið sorg og voli
árla í morgun upp reis hann
eins og Þorgilsboli.

Skelkur flaug í sálarsvið,
sérhver taug var fangin,
ekki er spaug að eiga við
árans draugaganginn.