Bragfræði og háttatal

Sveinbjörn Beinteinsson (1924-1993)

Sveinbjörn Beinteinsson (1924-1993)

Formáli fyrstu útgáfu 1953

Margir hafa yndi af vísum. Oft langar menn til að vita um bragarhætti vísna. Það eru mörg ár síðan mér datt í hug að semja bók um bragfræði. Fyrst ætlaði ég að taka vísur eftir aðra og greina háttaheiti þeirra og þá hefði ég einkum tekið vísur úr Bragfræði Helga Sigurðssonar. Þetta reyndist ófær leið, af ýmsum ástæðum.

Þá tók ég fyrir að yrkja háttatal.

Þeir, sem eitthvað hafa kynnt sér rímnabragafræði, vita, að nöfn á háttum eru mjög breytileg og eiga sumir hættir mörg nöfn, en aðrir ekkert; einnig er sama nafn stundum notað á marga bragi.

Ég nota að nokkru nýtt nafnakerfi, en reyndi þó að taka sem mest af eldri bragorðum. má deila á sumar nafngiftir bókarinnar, og hef ég valið þær eftir sem mér féll bezt og lýsti helzt einkennum hátta.

Orðaskrárnar vísa til, hvar finna má skýringu á torgætum orðum.Skáletraðir rímliðir, sem einkenna hvert afbrigði, en ekki það rím, sem er öllum flokknum.

Bragorð eru ýmist rituð sem nafnorð eða lýsingarorð; eða braghent o.s.frv. Til samræmis er notuð lýsingarorðmyndin við háttatal, ferskeytt, nýhent, o.s.frv. Sumir hættir eiga sérnöfn, sem ekki eru eiginleg bragorð, nema nokkur nöfn úr ferskeytta flokknum. Ég hef tekið allt, sem hægt var, af slíkum nöfnum.

Eftir Háttatali má skilgreina flesta rímnahætti, sem til eru; þótt þar vanti marga hætti, má oft finna rétt bragfræðiheiti með því að setja saman dýrleika tveggja eða fleiri tilbrigða. Ég tók alla þá hætti, sem ég veit að hafa verið ortar undir heilar rímur, en engan hátt það dýran, að ekki mætti yrkja heila rímu við hann.

Þessir hafa helzt ritað um bragfræði, svo mér yrði gagn að: Helgi Sigurðsson prestur á Melum í Borgarfirði, Björn Karel Þórólfsson doktor, Sigurður Kristófer Pétursson, Sir William Craigie, Jón Helgason prófessor.

Nokkrir hafa leiðbeint mér eitthvað við að semja þetta og nefni ég helzt til þess þá Freystein Gunnarsson skólastjóra og Snæbjörn Jónsson. Slík aðstoð hefur orðið mér nokkur styrkur í þessum fræðum og ekki síður í trúnni á gildi þeirra.

Ég hef reynt að tína til þau braglýti, sem algengust eru, einkum ef stærri skáldin hafa hnotið um þau.

Auðséð er, að bragregla er ekki trygging þess að kvæði sé mikils virði, en alltaf er leitt að sjá fagra hugsun í tötrum. Þarflegt væri að hafa aðra bók um höfuðeinkenni góðra kvæða, önnur en bragreglur. Hvað bíður síns tíma.

Von mín er, að einhverjir hafi nokkurt gagn af bragfræði þessari, en mér hefur orðið það lærdómsríkt á margan hátt, að semja hana.

Ritað á Draghálsi í Borgarfirði,

20. apríl 1953.

Sveinbjörn Beinteinsson.

a. Bragfræði

Bókstafir tákna þau hljóð, sem málið er myndað af. Þeir skiptast í sérhljóða og samhljóða.

Sérhljóðar eru þessir a, á, e, i, í, o, ó, u, ú, y, ý, æ, ö. Auk þess eru tvístafirnir au, ei, ey. Y, ý og ey hafa sama framburð og i, í og ei og eru því aðeins rittákn.

Samhljóðar eru é, b, d, ð, f, g, h, j, k, l, m, n, p, r, s, t, v, x, z, þ. Z er borin fram eins og s og er aðeins rittákn (úrelt).

Orðin eru mynduð úr atkvæðum (samstöfum). Sum orð eru eitt atkvæði, önnur tvö, þrjú, fjögur og fleiri ef samsett orð eru. Sagt er að orð séu einkvæð, tvíkvæð, þríkvæð eða fjórðkvæð: Sjór, mað/ur, kerl/ing/ar, skræl/ingj/ann/a. Alltaf er þyngst áherzla á fyrsta atkvæði orðs, en sé orðið fjórkvætt er aukaáherzla á þriðju samstöfu. Oft eru orð sett saman, tvö eða fleiri, og er þá áherzla á fyrsta atkvæði hvers orðhluta. Dæmi: hesta/maður, skák/manns/efni.

Ljóð eru saman sett úr bragliðum.

Það heitir tvíliður sé bragliður tvö atkvæði og er áherzlan á því fyrra, sem heitir ris, en það síðara hefur linan framburð og heitir hnig.

Ef rímað er með tvíliðum, þá heitir það tvírím:

Það yndi mig aftur dreymir,
er angan frá hvönninni streymir.
(Hulda.)

Þegar aðeins er ris, en ekki hnig á eftir, þá heitir sá bragliður stúfur; einrím kallast ef slíkir bragliðir ríma:

Hugrökk teygist á háum legg
hvönnin fram yfir gljúfurvegg.
(Jón Helgason.)

Stundum er áherzlulint atkvæði fremst í ljóðlínu og heitir það forliður:

En þetta frægur sigur var.
(Magnus Ásgeirsson.)

Forliður er í mörgum söngljóðum, en ekki í fornbrögum eða rímnaháttum, nema síðlínum úrkasts, dverghendu og valstýfu, ef hnig fellur aftan af frumlínum:

Unun fann í hjarta hann
sem hrindir banni.
(Sigurður Breiðfjörð.)

Forliðir verða oft þar, sem þeir eiga ekki að vera með réttu, og er það leyfi en ekki regla:

Úr hofmóðs fjöllum hlaupa skriður.
(Bólu-Hjálmar.)

Oft er skotið atkvæði inn í ljóðlínu, þar sem lítið ber á:

Hatar slaður og húsgangsraus.
(Bólu-Hjálmar.)

Illt er að nota mikið af slíku, en meinlaust, ef hóf er á.

Þríliður heitir það, ef tvö lág atkvæði fara á eftir risi:

Fjörðurinn opnaðist, breiður og skínandi.
(Stephan G. Stephansson.)

Ef rímað er með þríliðum, heitir það þrírím:

Skall yfir eldhafið, ólgandi, logandi,
eldvargar runnu fram hvæsandi, sogandi.
(Hannes Hafstein.)

 

Fáir yrkja þríliðuhætti svo vel fari.

Þríliður var stundum hafður til fjölbreytni í fornum háttum:

Meðan hans ætt
í hverlegi
gálgafarms
til goða teljum.
(Eyvindur skáldaspillir.)

Þríliður er alls ekki til í rímnaháttum.

Þegar þríkvætt orð er í rímnahætti, þá klofnar það í tvílið og stúforð, ef það er í enda braglínu:

Dreyrugan spenna dragvendil.
(Árni Böðvarsson.)

Ekki fer vel á þessu.

Ef þríliður er inni í vísuorði, þá klofnar hann, eða gidir sem tvíliður, og er það betra:

Hallgrímur á harðri brók.
(Jón Þorláksson.)

 

Stól marglitan standa sér.
(Gísli Konráðsson.)

 

Sigurður heitir sæmdarmaður.
(Stefán Ólafsson.)

Í söngljóðum er stundum öfugur tvíliður og er þá lint atkvæði á undan sterku:

Í dag skein sól.
(Davíð Stefánsson.)

Öfugur þríliður myndast á sama hátt:

Ég geng draumum á hönd
inn á leiðslunnar lönd.
(Guðmundur Magnússon.)

Mörg sönglög heimta slíka öfugliði, en þeir eri andstæðir íslenskum málreglum. Illt er að vita, hvernig kvæðum er oft misþyrmt til þess að syngja þau við lög, sem þannig eru. Þessu fylgir málspilling.

Stuðlar

Stuðlar eru upphafsstafir orða, sem eru endurteknir í tveimur ljóðlínum samstæðum, og gefur þetta ljóðunum sérstakan hljómblæ.

Seint er um langan veg tíðinda að spyrja hversu stuðlar hófust, en þeir eru ævafornir í germönskum ljóðum. Í fjögur hundruð ár hafa Íslendingar verið einir um stuðlaða kveðskap. Þótt annarra þjóða skáld grípi til þeirra stundum, þá er það án reglu.

Stuðlareglur eru margbrotnar og verða best lærðar af ljóðum. Hér verður fyrst getið um stuðla í stuttum ljóðlínum, í fornháttum, rímnabrögum og skyldum háttum.

Þegar sérhljóðar eru stuðlar, gilda þeir allir jafnt sem einn stafur væri og þykir reyndar fallegra að sinn sé stafur í stuðli hverjum:

Enn til ökla svanna
íturvaxins gatk líta.
(Kormákur.)

Oft er þó sami sérljóði í stuðlunum öllum:

Og unun vakti ungu hjarta
undursjón svo gild og há.
(Kristján Jónsson.)

Séu samhjóðar stuðlar, þá er sami stafur í þeim öllum þremur:

Held ég ráð að hressa lund
og harmadægur skerða.
(Jón Guðmundsson lærði.)

Margir rugla saman hv og kv í stuðlum. Þessu veldur ósnjall framburður víða um land. Viðurstyggð er  að sjá slíkt í stuðlun.

Stafurinn s hefur sérstöðu í stuðlasetningu. Ef s er stuðull, en næsti stafur er k, l, m, n, p eða t, þá verður einnig svo að vera í hinum stuðlunum. Þetta heita gnýstuðlar:

Skjól þó samt ekkert skýli
skal ei vind hræðast svalan.
(Bjarni Thorsteinsson.)

 

Slyngum þeim sláttumanni,
er slær allt hvað fyrir er.
(Hallgrímur Pétursson.)

 

Hugurinn lömbum smalar smátt,
smýgur um víða geima.
(Sveinbjörn Egilsson.)

 

Snyðja læt eg, kvað snerpir málms,
snekkju barð úr Sogni.
(Fjölþjófnisrímur gamlar.)

 

Spennir enni spöngin löng,
spíran víruð gulli
(Reinaldsrímur, eftir Sigurð blind?)

 

Stirndi á stál
og stæltar eggjar
(Hannes Hafstein.)

Ljótt er að nota þessa stuðla á mis við þá reglu, sem lýst var, þó að sumir hafi gert það:

tt er í lskins brekku
smalinn horfir á.
(Steingrímur Thorsteinsson.)

 

Stikaði djarft með stoltar svip
Snæfellingagoðinn.
(Alþingisrímur.)

Elsti bragarháttur norrænn er víst fornyrðislag:

Drúpir Höfði,
dauður er Þengill, —
hlæja hlíðir
við Hallsteini.
(Hallsteinn Þengilsson.)

Í þessum hætti eru stuðlar oftast tveir en stundum þrír og sýnir þessi vísuhelmingur hvort tveggja.

Ljóðaháttur er ævaforn bragur:

Hrímfaxi heitir,
er hverja dregur
nótt of nýt regin;
méldropa fellir hann
morgun hvern;
þaðan kemur dögg um dala.
(Valþrúðnismál.)

Þarna eru tvær og tvær ljóðlínur með sama hætti og í fornyrðislagi, en ein og ein sér um stuðla og eru þar tveir, en ekki tengdir við aðrar ljóðlínur.

Dróttkvæður háttur er talinn fyrst ortur í lok áttundu aldar; þar eru stuðlarnir þrír:

Rósta varð í ranni
Randvés höfuðniðja.
(Bragi inn gamli Boddason.)

Braglínur og bragliðir

Ferskeytt vísa lítur þannig út:

Frelsisdagsins brúnin björt
blikum tvístar öllum,
því hún bjarmar ærið ört
upp af vonarfjöllum.
(Bólu-Hjálmar.)

Í henni eru fjórar ljóðlínur, einnig nefndar braglínur eða vísuorð (stundum kallaðar hendingar, en það orð er ekki notað hér). Fyrsta og þriðja lína heita frumlínur, en önnur og fjórða síðlínur. Ef önnur eða þriðja lína er órímuð, heitir hún viklína.

Séu braglínur þrjár, þá heitir sú fyrsta frumlína, en hinar tvær síðlínur og, ef aðgreina þarf, miðlína og loklína. Ef vísuorð eru tvö þá heita þau frumlína og síðlína.

Einnig má kalla sérlínur ef vísuorð eru ekki tengd við önnur með stuðlum; sjá ljóðahátt og fleira.

Bragliðir eru missterkir. Fer jafnan sterkur bragliður fyrst í ljóðlínu, en síðan áhersluminni, þá sterkur og síðan léttur. Þyngri bragliðurinn heitir hljómstig, en sá léttari lágstig.

Fyrri stuðull í frumlínu heitir yfirstuðull, en sá síðari undirstuðull og verður annar hvor að vera í hljómstigi. Það er algild regla. Þriðji stuðull er alltaf í fremstu áherslu síðlínu og heitir höfuðstafur. Aldrei má stuðull vera í forlið. Ekki má vera meira en einn bragliður milli stuðla; frá því er samt vikið í löngum ljóðlínum og fornyrðislagi og ljóðahætti.

Bezt þykir að yfirstuðull sé í fyrsta braglið, en undirstuðull í þriðja og eru þá báðir í hljómstigi. Það heitir hástuðlað:

Kveður í runni, kvakar í mó
kvikur þrastasöngur.
(Jónas Hallgrímsson.)

Sé yfirstuðull í öðrum braglið, þá verður undirstuðull að vera í þriðja, sem er hljómstig. Þetta er lágstuðlað:

Sé þér blær um bjarta nótt
bæði vær og þýður.
(Þorsteinn Erlingsson.)

Stundum eru stuðlarnir í öftustu bragliðum. Þá er síðstuðlað, og er jafnan þannig í sléttuböndum:

Dafnar bráðum fólkið Fróns,
felldu býlin reisir.
(Einar Benediktsson.)

Forðast ber að ofstuðlun verði:

Ljóð frá auði lyfti Lofti.
(Matthías Jochumsson.)

Vont er að stuðlar séu í orðum sem lítið ber á í ljóðlínu. Velja þarf áhrifamestu orðin fyrir stuðlana; þess gættu fornskáldin oftast:

Sal veit eg standa
sólu fjarri.
(Völuspá.)

Slæmt er að stuðla þannig:

Að nokkurri eykt lét svífast — —.
(Snorri á Húsafelli.)

Í löngum ljóðlínum gilda ekki að öllu sömu reglur og í þeim styttri. Stundum eru í langlínum tveir bragliðir milli stuðla:

Hún réðst með hrífu sína og reiddan miðdagsverð.
(Guðmundur Friðjónsson.)

 

Við gleymdum lengur liðnum tímans hætti;
enn lifir skuggi af þeim í okkar reit.
(Einar Benediktsson.)

Það hendir suma að hafa tvenna stuðla í langlínum og er það ljótt:

Þá auga manns sér allri fjarlægð fjær.
(Einar Benediktsson.)

Þess ber að gæta við stuðlun, að langar ljóðlínur hafa allt annan hljómblæ en þær styttri og minna um sumt á fornyrðislag, en þar voru oft nokkur áherslulítil atkvæði á milli stuðla:

Máni það né vissi
hvað hann megins átti.
(Völuspá.)

Sumum hættir til að hafa of langt milli stuðla og verða þeir þá að engu:

Örðug fór að verða eftirreiðin.
(Grímur Thomsen.)

Þessi ljóðlína er það heilsteypt, að hún þolir ekki að tveir bragliðir verði á milli stuðla. Það er eins og löngu braglínurnar séu sveigjanlegri og því nái hljómur stuðlanna þar sama, þó lengra sé á milli.

Stuðlar verða áhrifaminni í langlínum og ætti þar að vanda betur til þeirra.

Það breytir talsvert hljómi orðanna, hvort samhljóðar fremst í orðinu eru einn, tveir eða jafnvel þrír: fóður, fræ, frjór. Þetta er gott að muna, ef menn vilja vanda mjög til stuðla.

Frá Hveravalla fegurð að Hvítárvatnsströnd —
svo hverfur Urður sjónum og Skuld mér réttir hönd.
(Haukur Eyjólfsson.)

Þetta nefnast rekstuðlar.

Miklu skiptir, að stuðlar séu í þeim orðum, sem mest eru í ljóðlínu hverri:

Hugann grunar, hjartað finnur lögin.
Heilinn greinir skemmra en nemur taugin.
(Einar Benediktsson.)

Það er betra að hafa tilbreytni í stuðlun; hafa til skiptis gnýstuðlun og aðrar tegundir, einnig að hafa ekki sömu stuðla hvað eftir annað.

Rím

Rím er ýmist endarím eða innrím.

Endarím er oft runuhendurím:

Hné fólk á fit
við fleina hnit.
(Egill Skallagrímsson.)

Tíðara er þó víxlrím:

Hver sem skilur ekkert af
efni því sem honum er kennt,
finnst þeim allt sem fánýtt skraf,
festist engin hjá þeim mennt.
(Jón Magnússon í Laufási.)

Stundum er ein ljóðlínan órímuð, en hinar ríma saman; rímvik:

Var því líkt sem vogurinn allur brynni,
þegar lóns um ljósa blik
leika náði aldan kvik.
(Þorlákur Guðbrandsson.)

Innrím er stundum þversett og ríma þá saman orð í sömu ljóðlínu:

Frúin hefur fagran munn.
(Hallur Magnússon.)

Langsett kallast það innrím sem tekur yfir meira en eina ljóðlínu:

Dvínar mátt við mærðar slag
mansöngs þátt að greina,
vanda hátt, þó veikt sé lag,
verður brátt að reyna.
(Þorvaldur Magnússon.)

Lengi var þess nokkuð gætt um innrím, að orðin rímuðu rétt saman, bæði ris og hnig:

Höfðu báðir fyrðar fjáðir
fimmtán skeiðir,
hugðu tjáðir heim með dáðir
halda á leiðir.
(Bjarni Borgfirðingaskáld.)

Þarna blindfellur allt. Á nítjándu öld og síðan er þessa miður gætt.

Fallegra er að innríma nákvæmt, en fáir gera það. Í sléttuböndum ætti þó alltaf að fylgja þeirri reglu; þau missa mikið af fegurð sinni, ef illa er vandað til innríms.

Stundum eru rímuð saman orð, ólík að hljómi, vegna þess að annað orðið hefur samhljóða á eftir þeim samhljóða, sem rímið myndar; rímhalli. Þetta er allslæmt:

Auðs systur mjög trauðan.
(Hallfreður.)

 

Heims vafurlogi sveimar.
(Einar Skúlason.)

 

Stýrir dýrs með trausti.
(Konráðsrímur.)

Það var oft í fornum kvæðum, að áherzla var færð milli atkvæða til þess að fá rím:

Áleifur konungur mála.
(Sighvatur.)

 

Farlands konungur jarla.
(Þórður Kolbeinsson.)

Þarna virðist rímað eftir framburði. Þetta var fágætt í rímum þangað til á nítjándu öld, en gerðist þá altítt og þekkist enn. Þetta er slæmt lýti:

Þess ég ætíð óska má
ef mér lætur kvæðaskrá
stúlkum sæti að hafa hjá
heldur kætist sálin þá.
(Sigurður Breiðfjörð.)

Í háttatali Snorra er sú rímgerð er heitir náhent:

Vann kann virðum banna.

Þarna standa rímrisin saman. Þetta er fátítt í rímum, en sést þó stundum í gömlum rímum, þar sem ætti að vera hnig milli rímatkvæða:

Fann hann belg af dýri.
(Konráðsrímur.)

Enginn hefur ort rímu undir náhendum hætti, en til eru vísur náhendar:

Ljóðum á þá lund að dá þá lengst, sem smá þá.
Skulum fá þá eigin ásjá
út úr lágþrá, kvíða og váspá.
(Stephan G. Stephansson.)

Víða má finna rangar áherzlur í rími; áherzluvillur. Oft eru þríkvæð orð notuð þannig, að endasamstafan er látin gilda sem stúforð:

Hlífa ei lífi höldar par
hrundu úr undum benfossar.
(Magnús Jónsson prúði.)

Algengt hefur það verið lengi að láta sams konar endingar orða ríma og er þetta slæm rímvilla:

Þarna fipast fljótráðum,
fá þó svip af gersemum.
(Matthías Jochumsson.)

Þó er enn verra ef einn sérhljóði myndar rímið:

Þú hefnir þess í héraði,
sem hallaðist á Alþingi.
(Páll Vídalín.)

Verst er þó, ef hnig tvíliðs er látið mynda einrím:

Gæti ég öfugt í bit
á þeim djöfuls hælbein.
(Natan Ketilsson.)

Minna ber á lýtinu, ef þríliðirnir ríma saman að öllu leyti, en er þó jafnrangt:

Súða lýsti af sólunum
síla víst á bólunum.
(Magnús í Magnússkógum.)

Þetta tíðkast enn mikið en þarf að hverfa.

Í dróttkvæðum var mikið notað sniðrím; það hét þá skothent. Sniðrím er þannig gert, að áherzlusamhljóðar í rímorðunum er þeir sömu, en sérhljóðinn annar: Land — sund, dáð — geð.

Ástum leiddi okkur fast.
(Björn Breiðvíkingakappi.)

Þetta komst inn í rímurnar á sextándu öld og var mikið notað á sautjándu öld; minna síðan, en þó alltaf talsvert.

Aldarskáldináðurfróð
orðagjörðum breyttu.
(Kolbeinn Jöklaraskáld.)

Hristist jörð við geira gust.
(Hákon í Brokey.)

Heiti og kenningar

Heiti og kenningar settu mjög svip sinn á fornkvæðin, einkum dróttkvæði. Rímnaskáldin tóku við þessum arfi. Kenningar voru ekki ýkja miklar í rímum lengi vel, en færðust í vöxt, þegar dýrum háttum fjölgaði, á 16. öld og síðan.

Hér verður fátt sagt um heiti og kenningar, en þó verður að gera lítils háttar grein fyrir þessu.

Heiti er orð, sem notað er í stað venjulegs nafns á einhverju: Rekkur, seggur, gumi eru heiti og þýða maður. Mar og ver eru sjávarheiti.

Kenningar eru í rauninni líkingar. Kenning er í tveim hlutum: höfuðorð og kenniorð. Höfuðorð er nafn þess, sem líkt er við, en kenniorðið tengir líkinguna því sem á að lýsa.

Dæmi: Höfuðorð: viður, kenniorð: sverð = sverðs viður = maður.

Þá er rétt kennt, ef líkingin fæst staðizt. Rétt er að kalla skip öldu hest og segja að hann vaði eða syndi hafið. Ef sagt er, að ölduhestur skríði um sjóinn, þá er kenningunni spillt; ormar skríða, en hestar ekki.

Þorbjörn hornklofi yrkir um „bleikan bárufák“, og fer vel á því. Í Friðþjófsrímum er þetta:

Að Sólundum siglu orm
svartan læt ég skríða.

Stundum er tvíkennt og er þá fyrri kenningin höfuðorð: Fiska jörð er sjór; fiskajarðar hestur er skip.

Þríkennt er, ef sagt væri: stýrir fiskajarða fáks. Það er kallað rekið ef þríkennt er. Enn má færa þetta lengra út, og var það altítt í dróttkvæðum, en fágætt í rímum.

Fljótt læra menn að skilja kenningar, því oft segir efnið til, hvað kenningin merkir. En til þess að rekja uppruna hverrar kenningar, þurfa menn að kynna sér Snorra-Eddu.

Heiti eru nú fátíð í ljóðum og kenningar ennþá sjaldgæfari. Þetta er illa farið; góðar kenningar og vel valin heiti prýða skáldskap.

Varasamt er að taka kenningar eftir rímum, þær eru oft rangar. Víða er þó vel kennt í rímum, einkum þeim eldri.

Alltaf verður ljóðamál nokkuð frábrugðið lausu máli; orðaröð önnur og setningar á annan veg. Forðast ber að yrkja á mjög annarlegu máli eða víkja frá því, sem eðlilegt er.

Það fer sjaldan saman að yrkja hratt og yrkja vel.